Þakkir – og hugleiðing um kirkju

Jóhanna Magnúsdóttir fékk 12 atkvæði af 203 í kosningu um prest á Staðastað. – Það þýðir að samfélagið á sunnanverðu Snæfellsnesi er ekki (nema þessir 12) tilbúið að fá konuna mig sem sinn prest, og samfélagið, fólkið – kirkjan hefur talað. –

Ég hef talað opinskátt og sagt frá mínum hugmyndum og lífsgildum.

Mér finnst mikilvægt að þakka þessum tólf sem gáfu mér atkvæði sitt, ég er þakklát fyrir traustið.  EInnig er ég þakklát fyrir allt fólkið sem er búið að fylgjast með, hvetja mig og styðja, mér líður eins og sigurvegara, sannast að segja. 

Brené Brown – segir: “Failure is the Birthplace of Success” – og þannig líður mér núna, eins og ég hafi fæðst inn í nýjan kafla og komist langt áfram á framabrautinni. –

Mig langar að segja ykkur frá hvernig ég sé kirkjuna – eða samfélagið í kirkjunni fyrir mér. –  Það er ekki ósvipað því sem gerist í nafnlausu samtökunum, þ.e.a.s.AA – Alanon – Coda eða slíku.  Þar sem allir koma saman og eru ekki að hengja á sig merkimiða stéttar, stöðu o.s.frv.  enda fer Guð ekki í manngreinarálit.   Í kirkjunni mætumst við, fyrst og fremst, sem manneskjur. –

Með mína lífsreynslu – menntun og þekkingu treysti ég mér síðan til að vera leiðandi í umræðu, koma með hugvekju, pistil, prédikun – sem innlegg, og svo sannarlega fá fleiri til að leiða þegar við á, t.d. um sérstök málefni og lífsreynslu sem fólk vill deila. –   Síðan geta allir sem vilja tekið til máls, eftir fyrirfram gefnum tímatakmörkunum eða reglum sem söfnuður setur sér.

Í kristinni kirkju myndum við setjast niður með Kristi, – vita að við værum í raun leidd.

Ég starfa þannig í dag að ég treysti Guði fyrir handleiðslu. –  Tek á móti og deili út því sem að mér er rétt.  Já, ég er á andlegu og um leið einföldu nótunum. –  Þyrfti ekki mikið skraut eða prjál. Til hátíðarbrigða eru hefðbundnar messur, kór, orgel og allur pakkinn – en aðeins þannig að þær skili sínu, – að þær séu andleg næring fyrir þau sem í þeim taka þátt.. –  Við þurfum að velja vel á diskinn okkar. –

Velja vel fyrir líkama og sál.

Velja trú – von og kærleika.

Vinátta og samhugur er undirstaðan.

Við komum ekki saman til að dæma, heldur til að skilija náungann og okkur sjálf,  játast sjálfum okkur sem góðri sköpun Guðs, sem erum sköpuð til að skapa, vera heiðarleg, auðmjúk, – og vera til.

Þannig sé ég kirkjuna. –

Þannig tel ég mig vera að ganga veg sannleikans, veg kærleikans og veg lífsins. – 

Við erum öll í þessu saman.

Þjónandi leiðtogi, þannig vil ég vera.

Friður – Gleði – Ást – Þakklæti.

1380783_10151737349123460_1121836056_n

Advertisements

Guð, get ég þetta? …

Ég hef alla tíð viljað gera vel það sem ég hef gert. –  Þegar stórt verkefni er framundan, spyr ég mig “Gét ég þetta?” – og núna spyr ég:

“Guð get ég þetta?” –  

Ég hef hingað til getað margt, – getað sinnt starfi eins og starfi aðstoðarskólastjóra framhaldsskóla í tæp sex ár,  þar sem hitinn og þunginn lá oft að mestu leyti á mínum herðum.  Ákvarðanir,  reddingar, mannasættir,  skipulag, viðtöl, sálusorgun og styrking nemenda og jafnvel starfsfólks, viðburðastjórnun o.fl.  allt í einum pakka.

Í þessu starfi fékk ég, vegna menntunar minnar,  spurningar eins og “Af hverju hatar Guð homma?” – Að sjálfsögðu gat ég leiðrétt þennan misskilning, enda hatar Guð ekki nokkurn mann. – En ég hef beitt mér fyrir jafnrétti innan kirkjunnar, og var ein af þeim guðfræðingum og prestum sem skrifaði undir viljayfirlýsingu um jafna vígslu samkynhneigðra á sínum tíma.

Ég hef getað unnið sjálfstætt undanfarin ár, sett upp og skipulagt námskeið, fyrirlestra, – unnið með fólk í sorg, og leiðbeint fólki til að sjá ljósið, eins og ég orða það.  Ég hef unnið með börnum, unnið með unglingum, unnið með ungu fólki, miðaldra og eldra fólki.

Ef ég hef getað þjónað fólki og verið andlegur leiðbeinandi hingað til,með góðum árangri og oft einlægu þakklæti,  hvers vegna ekki í framtíð og innan kirkjunnar?

Ég trúi að ég sé kölluð til þjónustu allt frá bernsku.  Ég var eins og þerripappír á allt trúarlegt efni og sótti sunnudagaskóla frá því að ég gat farið að ganga ásamt stóru systur upp í Hallgrímskirkju frá Grettisgöunni.   Biblíusögur voru mitt uppáhaldsfag.  Pabbi, sem var prestsonur, kenndi okkur bænirnar og eftir að hann lést 1969 þar sem ég var aðeins sjö ára gömul, hélt ég áfram að biðja og gerði það fyrir mig og eldri systur mína.  Kenndi svo börnunum mínum þessar bænir, sem þau kalla; “bænirnar hans afa” og er dýrmætur arfur. –

Ég jós dúkkurnar mínar vatni, – og jarðaði síli uppí sumarbústað. –  Eitthvað var ég þó sein að koma mér í guðfræðinámið,  eða “á gamals aldri” eins og ein ung frænka mín orðaði það, en ég var aðeins 37 ára 🙂 og fannst það ekki gamalt. –  Embættisprófi lauk ég á mínum fimm árum, þó að það væri erfitt lokaárið þar sem ég stóð jafnframt í skilnaði.  Ég gat það,  útskrifast á réttum tíma,  þrátt fyrir gífurlega sorg og erfiðleika sem fylgdi í kjölfar skilnaðar eftir 20 ára hjónaband. –  Það var vegna míns áfalls og eftirvinnu, sem ég bjó m.a. til námskeiðið “Lausn eftir skilnað”  sem ég hef haldið með góðum árangri í tugi skipta. –

Kirkjan kallar á mig, ég hef nægan starfa í dag – þó það sé frekar nýtilkomið. Það tók tíma að vinna upp orðspor sem sjálfstætt starfandi guðfræðingur,  þó það sé undir hatti sjálfsræktasamtaka.  Bakslag kom í uppbyggingu á starfi mínu  í upphafi vetrar,  en eins og fram hefur komið fór lifandi lindin mín, frumburðinn minn hún Eva Lind, að flæða handan jarðneskrar tilveru í upphafi árs 2013.

Ég hélt, satt að segja, að ég gæti aldrei unnið aftur, hvað þá að hjálpa fólki með allar þessar tilfinningar og sorg,  en ég fékk hjálp til að stíga út á vinnumarkaðinn á ný, með meðbyr margra góðra vina og fjölskyldu sem studdi,  og svo með fjórum fötluðum einstaklingum sem ég var að kenna í Borgarnesi.  Það var í mars sl. – að ég mætti aftur í kennslu,  – ég hafði það fyrir sið að byrja alla tíma með að teikna broskall á töfluna.  Ég var varla kominn inn fyrir þröskuld, þegar hann Ölver minn, sem er með downs syndrome, kallaði:

“Teikna broskall”  – og það var eins og sólin færi að skína í hjartanu á mér.

Lífið hélt áfram, höktandi til að byrja með, en með trú, með góðu fólki, með Guði hélt það áfram og ég held áfram að fylla á minn lífsbikar.  Gef af honum og deili.  Deili því að tilgangur lífsins sé gleði og fókusinn okkar sé gleði. –   Það hljómar undarlega – en sorgin og gleðin eru systur,  og við þurfum að finna jafnvægið á milli þeirra.  Til að geta afborið sorgina þurfum við stundum að gleðjast. –   Teikna broskall, sem lýsir í myrkrinu.  –

Já get ég þetta Guð? –  Tekið við Staðastaðarpestakalli, flutt út á land og þjónað samfélaginu í þessum sex sóknum í blíðu og stríðu?

Já,  ég get það, með Jesú Krist sem leiðtoga lífs míns, og með óbilandi trú á upprisuna og hið eilífa líf.

Með trú, von og kærleika.

Verði Guðs vilji – að eilífu amen. 

1385223_10200119359621860_150944558_n

SÚPA, SPJALL OG BRAUÐ fimmtudag 31. október 2013

Eftirfarandi bréf er nú á leið til sóknarbarna í Búðasókn, Fáskúðarbakkasókn, Hellnasókn, Kolbeinsstaðasókn, Staðarhraunssókn og Staðastaðarsókn.

SÚPA, SPJALL OG BRAUР

Fimmtudaginn 31. október.

fish-soup-ck-1842315-l

Ágætu sóknarbörn í Staðastaðarprestakalli, 

Ég undirrituð, JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR, guðfræðingur og umsækjandi um Staðastaðarprestakall og 
JÓN FRIÐRIK SNORRASON, matreiðslumeistari, bjóða þér og þínum í súpu og brauð fimmtudaginn 31. októkber næstkomandi.

Þar sem ég sé ekki fram á að ná að heimsækja ykkur öll, ágæta fók, sem tilheyrið sóknum Staðastaðarprestakalls, en langar mikið til að hitta sem flesta, langar mig að freista þess að ná saman með því að bjóða upp á “Prestakalls-súpu” spjall og brauð. Að sjálfsögðu eruð þið sem ég hef nú þegar heimsótt einnig velkomin.

KL. 12:30 – 14:30  FÉLAGSHEIMILINU LINDARTUNGU 

KL. 16:00 – 18:00 FÉLAGSHEIMILINU LÝSUHÓLI 

Verðum með ýmislegt efni til kynningar á staðnum, fyrir þau sem vilja.

 • Hugvekju-og hugleiðsludiskinn Ró
 • Vikuna, þar sem ég var í forsíðuvitali um lífsreynslu mína
 • Útprentaða ræðu sem ég notaði til kynningar í Breiðabliki á sameiginlegum fundi umsækjenda
 • Kynningarbækling

Ekki er nauðsynlegt að melda sig, aðeins mæta með sjálfan sig og/eða fjölskylduna.

Verið öll hjartanlega VELKOMIN.

Jóhanna Magnúsdóttir

Farsími: 8956119

 

Hvernig ég lifi og starfa ..

Jóhanna Magnúsdóttir heiti ég, og ég verð 52 ára ung þann 21. nóvember. –  

Ég er að sækja um embætti sóknarprests í Staðastaðarprestakalli, því mér finnst kominn tími til að ég fari að nýta mína kunnáttu, reynslu og menntun undir hatti kirkjunnar og ég tel að miðstöðin sé vel staðsett á Snæfellsnesi. – 

Minn stærsti kostur, er að ég nota lífsreynslu mína – þó erfið sé í mörgum tilfellum,  til að læra af henni og þroskast. 

Sumir fara í gegnum lífið eins og þeir séu alltaf í leikskóla, það verður ekki mikill mótbyr,  og lítil átök. –   

Aðrir fara í gegnum lífið og fá alls konar verkefni og mikil átök,  og það er þá eins og háskóli. – 

Svo er auðvitað einhver millivegur þarna og sem betur fer,  er lífið ekki alltaf eins,  stundum auðvelt og stundum erfitt. – 

Við höfum ekki alltaf val hvað mætir okkur,  en við höfum val um viðhorf og hvernig við tökumst á við það sem mætir okkur.  Við höfum val um fókus,  – fókus á myrkur eða fókus á ljós. – 

Þó að við höfum þetta val, þýðir ekki að við afneitum sorginni,  eða sorgarferli þegar það fer í gang.   Við hreinlega verðum að mæta öllu því sem að höndum ber og fara í gegnum það, – því ef við flýjum er hætta á að við leitum annarra leiða til að sefa sorgina,  leitum í fíkn, fíkn í formi lyfja, áfengis, matar,sykurs,  vinnu .. eða hvað það sem okkur er tamast. –  

Oftast er það sem okkur vantar – ekki það sem ég taldi upp hér áðan,  heldur vantar okkur hið andlega,  tengingu við Guð. 

Það er því mikilvægt þegar á móti blæs, að setjast niður með Guði, finna fyrir nálægð og nærveru Guðs. –  Líka er það mikilvægt að upplifa það að Guð er með okkur alla leið, – gengur með okkur í gegnum sorgina, gegnum martraðirnar og að sjálfsögðu gleðst Guð líka með okkur þegar vel gengur. – 

Fagnaðarerindið er upprisan,  – ég hef leyft mér að tala um “Míní-upprisur” – það er þegar okkur finnst allt búið og farið til …..   en upplifum svo góðan dag stuttu seinna, og komum kannski tvíefld inn í daginn eða verkefnin. – 

Vonandi eigum við öll góðan dag í dag, ætla að enda með þessum frábæra texta frá hljómsveitinni Ný-Dönsk,  en þar er spurt:

 “Hvað get ég gert?” – 

Bölmóðssýki og brestir 
Bera vott um styggð. 
Lymskufullir lestir 
útiloka dyggð. 
Myrkviðanna melur 
Mögnuð geymir skaut. 
Dulúðlegur dvelur 
Djúpt í innstu laut. 
Dvelur djúpt í myrkviðanna laut. 
Varir véku að mér 
Vöktu spurnir hjá mér. 
Hvað get ég gert? 
Horfðu til himins 
Með höfuðið hátt. 
Horfðu til heimsins 
úr höfuðátt. 

 

nordurljos_3

Einföld formúla ánægjunnar …

Oft er það einfaldleikinn sem færir okkur mestu ánægjuna. Við erum stundum að flækja lífið of mikið. Erum með of mörg leyndarmál,  finnst við aldrei hafa, eiga nógu mikið eða vera nógu góð eða þá að við búum til stríð heima í stofu. – En hvernig er þessi einfalda formúla ánægjunnar?

Stigin eru eftirfarandi:

1. Þakklæti fyrir það góða sem er í lífi okkar (upplagt að minnast þess á hverjum degi, jafnvel á sama tíma dagsins, og endilega virkja alla fjölskyldumeðlimi, gott fyrir börn að alast upp við þennan sið).

2. Gleði – ánægja er afrakstur þakklætis, og kemur vegna þess að við höfum nú stillt fókusinn  á það sem við erum þakklát fyrir og ánægð með í lífinu.

3. Jafnvægi – næst mun frekar þegar við erum glöð – við nennum ekki að ergja okkur á smámunum, á öðru fólki sem er í fýlu o.s.frv. –  ef við förum í gremju eða fýlu byrjum aftur á stigi 1 og þökkum meira og ef við spólum í sama fari þurfum við e.t.v. að fyrirgefa meira (sjálfum okkur líka).

4. árangur –  næst nú í því sem við tökum okkur fyrir hendur og í samskiptum.

Gleðin er ekki einungis besta víman, hún er besta orkan sem kemur okkur áfram að því markmiði sem við stefnum og að ganga í gleði hlýtur að vera mikill lífsárangur!

Eigum góðan dag og leikum okkur! –

426349_4403581721455_1819512707_n

Styrkleikar skv. meðmælendum

Hér koma brot úr meðmælabréfum, –  Meðmælendur eru úr ólíkum áttum og hafa misjafna aðkomu til að hægt sé að fá mismunandi áherslur, sem verða þó merkilega  líkar. – Ég er bæði auðmjúk og þakklát fyrir öll þessi styrkjandi ummæli, – sem staðfesta að ég hef verið að gera eitthvað rétt. Tek það þó fram, að ég á mína veikleika eins og styrkleika, en stundum eru veikleiki og styrkleiki sitt hvor hliðin á sama peningnum. –

Elína Hrund Kristjánsdóttir,  sóknarprestur v/Reykhólakirkju (skammstafað EHK)

Gunnlaugur A. Jónsson, Prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild   (skammstafað GAJ)

Haraldur Borgar Finnsson, fv. skólastjóri Réttarholtsskóla og samstarfsmaður í Menntaskólanum Hraðbraut.  (Skammstafað HBF)

Hákon Guðröðarson,  nemandi í Menntaskólanum Hraðbraut. (Skammstafað HG)

Kjartan Pálmason, guðfræðingur og framkvæmdastjóri Lausnarinnar.  (Skammstafað KP)

Ólöf María Brynjarsdóttir nemi í nútímafræði við Háskólann á Akureyri og fyrrv. framkvæmdastjóri Rauða krossins í Borgarfirði. (Skammstafað ÓMB)

STJÓRNUNARHÆFILEIKAR:

 • “Jóhanna er einstök manneskja, sérlega hjartahlý og góðviljuð, á mjög gott með að laða fólk til samstarfs á uppbyggilegan hátt”  GAJ
 • “Þar var hún fyrst við yfirsetu eins og ég en varð svo aðstoðarskólastjóri. Í því starfi naut hún sín afar vel, stjórnaði nemendum og starfsfólk á einstaklega ljúfan máta en þó þannig að allir lutu hennar stjórn. Hún var leiðtogi sem fékk fólk með sér til góðra verka án fyrirskipana og eftirgangsmuna.”  HBF
 • Hún hefur unnið úr raunum lífsins með sínum einstaka lífskrafti og verið öðrum fyrirmynd og innblástur á sínum erfiðustu tímum. HG
 • Hún átti auðvelt með að hrífa okkur hin með sér því hún er einstaklega úrræðagóð og frjó. Það er mjög gott að vinna með Jóhönnu, en við höfum m.a. starfað saman í stjórn Félags guðfræðinga. Hún kann þá list svo vel að vinna í hópi og hlusta á öll sjónarmið og hún er bæði fær um að halda fram sjálfstæðum skoðunum og víkja frá þeim til samræma þær skoðanir annarra.”  EHK

VIÐMÓT:

 • “.Hún hefur sterkan persónuleika og er ljúf í allri framkomu. Í samstarfi er hún góður félagi, traust, hlý, glöð og einstaklega skemmtileg.”  EHK
 • “Jóhanna er einstök manneskja, sérlega hjartahlý og góðviljuð” ……. Hún reyndist góður námsmaður við guðfræðideildina en samt er mér minnistæðari hin þægilega nærvera hennar.  Sumir nemendur eru þannig að þeir beinlínis hjálpa kennaranum í kennslustundum með jákvæðni sinni. Jóhanna var slíkur nemandi.”  GAJ
 • Samband hennar við nemendur einkenndist af trausti og góðvild og og ég minnist ekki að nemandi hafi lagt til hennar misjafnt orð. Slíkt er fágætt en það var ekki vegna undanlátssemi heldur af virðingu þeirra og trausti á að hún myndi ætið vilja hag þeirra sem bestan.  HBF
 • “Hún vann hug og hjörtu okkar nemendana með hjartahlýju sinni og manngæsku, sama hvert vandamálið var hennar dyr stóðu ávallt opnar og hún ætíð reiðubúin að styðja og gefa góð ráð.” ….”Hún setur sig ekki á háan hest heldur í spor annara.” – HG
 • Jóhanna kemur til dyranna eins og hún er klædd, heil, ákveðin, skemmtileg  og einstaklega hjartahlý kona. ÓMB

BOÐSKAPUR:

 •  “Ég hef sagt við hana um þessi skrif hennar að hún sé í raun alltaf að predika. Það er ekki endilega gert og yfirleitt ekki með röð af biblíuvísunum þó svo að Jóhanna sé vel að sér í Heilagri ritningu. En hinn uppbyggilegi og kærleiksríki boðskapur hennar hvílir sannarlega á traustum kristilegum grunni.”   GAJ
 • Hver sá sem hlustar á erindi hennar eða les pistla hennar á netinu kemst að því að hér er á ferð náttúrlega fæddur predikari sem minnir á Louise Hay og Dale Carnegie. Boðskapur hennar er mannbætandi og á erindi við alla. Jóhanna er líka ein af þeim manneskjum sem að iðkar það sem að hún boðar, hún er sjálf gangandi dæmisaga sem hægt er að tengja við.  HG
 • “Mannrækt er Jóhönnu hugleikin og er hún fær á því sviði og sést það glöggt á skrifum hennar, hefur hún því hjálpað mörgum og þar með talið undirritaðri að vera besta útgáfan af sjálfum sér.” ÓMB
 • “Á þeim tíma sem ég hef starfað með Jóhönnu þá hef ég fengið að kynnast þessari orkumiklu, sjálfstæðu konu sem á sér stóra drauma um þjónandi farveg meðal fólks, drauma um að nýta reynslu sína og þekkingu sem hún hefur sótt af dugnaði með menntun, fræðslu, eigin reynslu og ekki síst í starfi með því fólki sem hefur verið að leita til hennar í einkaviðtöl eða á hin fjölmörgu námskeið sem hún hefur haldið hjá okkur í Lausninni sem og annarstaðar.   Jóhanna er einnig mjög fær penni og hefur skrifað marga framúrskarandi pistla sem höfða til þeirra sem vilja bæta líf sitt.”  KP
 • “Jóhanna er góður guðfræðingur og prédikari og hún á mjög auðvelt með að koma hugsun sinni á blað. Hún nær til allra aldurshópa, ungir sem aldnir hlusta á hana með athygli því hún talar til allra.”  EHK

LÍFSREYNSLA:

 • “Lífsreynsla, sjálfsþekking og hvernig tilvonandi þjóni hefur gengið að takast á við þau verkefni sem lífið hefur fært honum, eru að mínu mati mikilvægir þættir þegar velja skal prest til embættis og  þar hef ég trú á að Jóhanna sé fremst meðal jafningja.”  KP

ÞJÓNN KIRKJUNNAR:

 • “Það væri, að mínu mati,  mikill fengur fyrir íslenska þjóðkirkju og þann söfnuð sem hún sækir til að fá hana til starfa.”  GAJ
 • Samband hennar við nemendur einkenndist af trausti og góðvild og og ég minnist ekki að nemandi hafi lagt til hennar misjafnt orð. Slíkt er fágætt en það var ekki vegna undanlátssemi heldur af virðingu þeirra og trausti á að hún myndi ætið vilja hag þeirra sem bestan. Ég trúi staðfastlega að þannig muni hún reynast sóknarbörnum sínum. HBF
 • Það verður enginn svikinn af því að fá Jóhönnu sem sóknarprest sinn. Mjög heppnir eru íbúar þeirrar sóknar sem að hljóta þessa frábæru konu sem sinn sálarleiðtoga. Nýjir tímar kalla á nýjar áherslur í nálgun á fólki og fordómaleysi í fjölmenningarsamfélaginu Íslandi, væri þjóðkirkjan í góðum málum til framtíðar ef allir prestar væru eins og Jóhanna Magnúsdóttir. HG
 • Ég er sannfærð um að kirkjan fengi í henni  öflugan og traustan starfskraft. Ég get því með heilum hug mælt með Jóhönnu Magnúsdóttur í starf sóknarprests í Staðastaðprestakalli og er það vissa mín að hún muni sinna því starfi af alúð og manngæsku. ÓMB
 • “Meginástæða þess að ég skrifa hér nokkur orð um Jóhönnu , fyrir umsókn hennar til prestsstöðu á Staðastað, er sú að mér er umhugað um hina íslensku Þjóðkirkju, hag hennar, orðspor og ekki síst þá þjónustu sem kirkjan býður upp á fyrir fólkið í landinu.”  KP

Ég ítreka þakklæti fyrir uppbyggileg og styðjandi ummæli og hvað sem verður, þá hætti ég aldrei að þjóna fólki og þjóna Guði.

Ég vil öllum vel – og ég meina það! 

19369_1317086160995_2825926_n

Erum fædd til að opinbera dýrð Guðs.

“Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;”hvers vegna ætti ég að vera snjöll/snjall, fögur/fagur, hæfileikarík/ur og fræg/ur?” Spurningin ætti frekar að vera, “hvers vegna ekki ég.” Þú ert barn Guðs.

Að látast vera lítilfjörleg/ur þjónar ekki heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni.

Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra.”

Marianne Williamson (þýðing Svanur Gísli Þorkelsson)

9922720884_a3b930ab2e_s1.jpg