7. október 2013

Góðan dag – eða gott kvöld kæra, kæra fólk.

Ég hef haft þann sið á að skrifa að morgni, en nú skrifa ég að kvöldi þar sem netlaust var hjá okkur í Skorradalnum. – Ég er s.s. komin heim í “Hús andanna” eins og ég kalla Framnesveg 19. –

Það er mjög mikið búið að gerast síðan ég skrifaði síðast, en það markverðasta er heimsókn okkar Jóns Friðriks til prestshjónanna á Staðastað í gær á guðdómlega fallegum degi.  Það vildi þannig til að Klara prestsfrú átti afmæli, en við komum til þeirra um tvöleytið í gær.  Fengum þar kaffi og köku – og áttum gott spjall, auk þeirra Guðjóns og Klöru voru þar dætur þeirra tvær og dóttursynir, yndislegir báðir.  Við fengum að skoða prestsbústaðinn og þar er sko nóg pláss! –

Siðan skoðuðum við útihúsin – og þar er líka nóg pláss, hvort sem er fyrir skepnur eða veislur 🙂   Væri hægt að halda stóra veislu og bjóða öllum í sveitinni eða þannig! –   Í alvöru, þá væri ég sko alveg til í það. Það vita þau sem þekkja mig að ég hef svo gaman að því að safnast saman, halda boð og eiga góðar stundir saman.  Það verður vonandi hægt í kirkjunni líka, – auðvitað má vera gaman í messu.  Fólk kvartar þó mjög yfir hörðum og óþægilegum kirkjubekkjum, og einhvers staðar var talað um ósk um bólstraða bekki. –

Í morgun ók ég svo af stað, upp úr klukkan átta, frá Skorradal og sótti Svövu stórvinkonu mína í Borgarnes sem fylgdi mér á nokkra bæi, þar sem var gott og elskulegt að koma og svo fórum við í hádeginu í Laugagerðisskóla og þar var tekið vel á móti okkur og fengum við leiðsögn um skólann. –  Börnin voru elskuleg og skemmtileg, starfsfólk jákvætt og aðstaðan fín.

Þar fengum við líka þenna fína fisk að borða, mikið grænmeti og ávexti. Nammi, namm. –

Þegar við vorum að fara að kveðja, bar óvænta gesti að garði í skólanum,  en það voru þær Guðrún Halla Hafsteinsdóttir og móðir hennar Helga Guðbjartsdóttir, – en Guðrún Halla var náin vinkona Evu Lindar dóttur minnar.  Þvílík tilviljun, ef þær væru nú til? –  Að stoppa í klukkutíma í skólanum og vinkona Evu sem býr í Danmörku, en komin í haustfrí, birtist þar á sama klukkutímanum? –

Við vorum báðar jafn hissa, og ég fylltist þakklæti í hjartanu og varð reyndar svolítið meyr og lét eftir mér að fella nokkur tár á heimleiðinni þegar ég var orðin ein.  Það voru tár blandaðra tilfinninga.

Eftir skólaheimsóknina, fórum við á Dalsmynni – þaðan sem Svava er ættuð – og enn og aftur voru móttökurnar góðar.  Þá skildi leiðir okkar Svövu en maðurinn hennar, hann Símon, sem hafði víst verið bekkjarbróðir Inga bróður pabba,  kom og sótti hana, þar sem ég var orðin tímabundin – og ég hélt til Reykjavíkur til að fara að kenna á námskeiðinu “Ég get það.”

Það gekk súpervel – enda flott fólk þar á ferð.

Vala, ofurdóttir mín,  kom svo trimmandi til mín í Lausnina um 19:30 með Simba ofurhund.  Hún skutlaði mér svo heim, og nú er ég því loksins að skrifa dagbók.

Ég fékk nýtt meðmælabréf í tölvupósti í dag, frá honum Kjartani, framkvæmdastjóra Lausnarinnar.   Það er ekki laust við að ég sé hreinlega að verða feimin við hvað fólk er rausnarlegt á meðmælin og hvatninguna.

Ég hef, eins og ég hef áður sagt, verið að æfa mig að taka á móti gjöfum lífsins og þessi fallegu ummæli frá fólki úr ólíkum áttum – eru ekkert smá stórar gjafir. –

Þakklát, þakklát og aftur þakklát. 

vesturland-kort

Ég mun, verði ég kosin til embættis sóknarprests,  leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að skólastarf sé tryggt í Laugagerðisskóla,  þó ég sé ekki að fara að framleiða fleiri börn sjálf 🙂  ..

Leave a comment