Framtíðarsýn?

Ég vil ekki, íeins og oft er gert í pólitík, lofa stórum loforðum sem eru oft pökkuð inn í fallegar umbúðir  en lítið um innihald. –   Það sama gildir um t.d. skóla sem er með gífulrlega fallega upp setta og faglega eineltisáætlun,  eða viðbragðsáætlun við einelti, á sinni heimasíðu, en síðan er allt í fári innan skólans.

En vissulega er gott að hafa framtíðarsýn og drauma.

Þá stillum við upp markmiðunum, og um leið og við gerum það tökum við ákvörðun og stillum fókusinn á að ná þeim markmiðum og skref fyrir skref vinnum við að þeim.  Það skiptir líka mestu máli að hafa trú á þessum markmiðum, að þau muni nást, en um leið átta sig á hindrunum,  bæði raunverulegum og svo þeim sem við sjálf búum til í formi afsakana og ótta við áð takast á við hluti.

Framtíðarsýnin er mjög almenn fyrir Staðastaðarprestakall. Það er að aðkoma mín verði til góðs fyrir samfélagið og við í sameiningu byggjum upp og betrumbætum.   Að ég geti lagt mitt lóð á vogarskálarnar í samfélagi, sem mér sýnist nú þegar vera býsna gott. Það er líka gott að taka við prestsembætti þar sem prestshjónin eru svona vel liðin.  Hvar sem ég hef farið er talað fallega um þau sr. Guðjón og Klöru og ég fann, í heimsókn minni til þeirra að það ríkir góður andi í prestsbústaðnum.

Framtíðarsýnin er því að gera gott samfélag að betra samfélagi. Að sjálfsögðu nota ég þau “tæki” sem ég á fyrir, og þá náðargáfur sem mér eru gefnar og hafa reynst vel í fyrri störfum, þar sem áherslan var og er að vandamálin eru til að leysa þau en ekki flækja   – en mesta náðargáfan er eflaust að ég á auðvelt með að setja mig í spor annarra og mér líkar afskaplega vel við fólk.  

Mér finnst afskaplega fáir leiðinlegir og hef gaman af sérvisku. Það sem við köllum í daglegu tali “erfitt fólk” –  er bara fólk með sínar tilfinningar og við vitum yfirleitt ekkert þeirra sögu og getum því ekki dæmt, því við höfum ekki gengið í þeirra sporum.  Enda ekki okkar að dæma. Ég hef eyru til að hlusta á hvern þann sem vill tala. Ég hef trú á innihaldsríkum samskiptum, og að byggja upp samfélag og skóla á þeim grundvelli.

Hér var ég búin að skrifa svolítið um skólamálin, en það er e.t.v. of mikil pólitík í þvi – svo ég ætla hreinlega að taka það út. Við lærum svo lengi sem við lifum.

Framtíðarsýnin er því að leita farsælla lausna til farsældar samfélagsins sem tilheyrir sóknunum sex: Staðarhraunssókn, Kolbeinsstaðasókn, Fáskrúðarbakkasókn, Staðastaðarsókn, Búðasókn og Hellnasókn.

Í stuttu máli:

Framtíðarsýn er að mæta fólki þar sem það er statt. 

Ykkar einlæg,

Jóhanna Magnúsdóttir,

521861_10200483128614505_1148270096_n

Leave a comment